Viljayfirlýsing Silfurtúns og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands

DalabyggðFréttir

Í dag undirrituðu Dalabyggð, f.h. Silfurtúns, og Heilbrigðisstofnun Vesturlands viljayfirlýsingu, sem byggir á að kannaður verði grundvöllur þess að hefja undirbúning að samþættingu þjónustu við aldraða í Dalabyggð.
Þau Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE og Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar undirrituðu viljayfirlýsinguna.

Viljayfirlýsingin er svohljóðandi:

Á grundvelli neðan greinds gera Dalabyggð, kt. 510694-2019, og Heilbrigðisstofnun Vesturlands, hér eftir kallað HVE, kt. 630909-0740, með sér viljayfirlýsingu um að kanna grundvöll þess að hefja undirbúning að samþættingu þjónustu við aldraða í Dalabyggð. Aðilar tilnefna hvor um sig tvo aðila til þess að vera í undirbúningshóp sem hefja mun störf um áramót og skila skal af sér tillögu að frekara skipulagi þessa samstarfsverkefnis fyrir lok apríl 2023. Um verði að ræða tilraunaverkefni sem kynnt verði heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneyti og jafnframt leitað stuðnings frá fagráðuneytinu þessum áformum til stuðnings.

Þjónusta við aldraða á Íslandi er á höndum bæði ríkis og sveitarfélaga. Ríkið sér öldruðum fyrir heilsugæslu og sinnir heimahjúkrun. Sveitarfélög sjá fólki fyrir félagslegri heimaþjónustu og reka mörg hver hjúkrunar- og dvalarheimili líkt og Dalabyggð gerir með rekstri Silfurtúns. Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila er þannig uppbyggður að ríkissjóður greiðir daggjöld til stofnana sem reka hjúkrunar- og dvalarrými, óháð rekstrarformi, samkvæmt metinni þörf fyrir rýmafjölda í hverju heilbrigðisumdæmi.

Þær kannanir sem gerðar hafa verið á viðhorfi aldraðra sýna að þeir óska í flestum tilfellum að dvelja á eigin heimili til æviloka ef heilsa leyfir. Umræðan um sjálfræði aldraðra og einstaklingsmiðaða þjónustu við þennan þjóðfélagshóp verður sífellt meiri. Ljóst er að á næstu árum mun öldruðum fjölga hlutfallslega hraðar en öðrum þjóðfélagshópum vegna hækkandi lífaldurs og lækkandi fæðingartíðni. Markmið þessarar viljayfirlýsingar er fyrst og fremst að skapa grundvöll að sem skilvirkastri sem og hagkvæmastri öldrunarþjónustu í Dalabyggð og nærsveitum árið um kring, alla daga ársins. Einnig að brúa bil milli þjónustuaðila því nánari samvinna mun stuðla að heildstæðari þjónustu sem ætti að fækka „gráum svæðum“ og mögulegum hindrunum í kerfinu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei