Vinur minn missti vitið

DalabyggðFréttir

Dalaskáldið Björn Stefán Guðmundsson frá Reynikeldu hefur gefið út nýja ljóðabók. Bókin ber heitið Vinur minn missti vitið og er önnur ljóðabók Björns en áður kom út ljóðabókin Sæll dagur.
Björn er löngu orðinn þekktur fyrir ljóðagerð sína og kveðskap og hafa allmörg verk efir hann birst í gegnum tíðina t.d. í blöðum, tímaritum og á hljómdiskum.
Efni ljóðanna er sem fyrr sótt til æskuslóðanna á Skarðsströnd, heimaslóðanna í Búðardal, náttúrunnar og þess samfélags í Dölum sem Björn hefur lifað og hrærst í.
Útgáfu bókarinnar verður fagnað í Leifsbúð sunnudaginn 11. október kl. 15 og þar verður hún jafnframt til sölu á meðan á stendur á sérstöku kynningarverði. Þar mun skáldið taka á móti vinum og heitt verður á könnunni. Hann mun jafnframt árita bókina fyrir þá sem þess óska og lesa nokkur vel valin ljóð.
Ljóðabókin Vinur minn missti vitið verður til sölu hjá Pennanum Eymundsson og Samkaup í Búðardal.
Ímynd þín
Eitt sumar með sólskin í hjarta
og signdi okkur veröldin bjarta
hver stund var sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.
Á sælunnar stund birtust sorgir
það seiddu þig skýjanna borgir
og allt sem við áttum og sögðum
að eilífu marklaust var.
Því sárt er að bíða og sakna
um sumarið minningar vakna
ég finn að þú ert hérna ennþá
en aldrei á leið til mín.
Það glitrar um víkur og voga
þá vonir í birtunni loga
hver stund er sem blíðasta brosið
hvert blóm eins og ímynd þín.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei