Vorboðarnir

DalabyggðFréttir

Frétt hér á vef Dalabyggðar í gær um svartan svan á ferð um Hvammsfjörð flokkast víst yfir aprílgabb.
En verður að teljast frekar saklaust miðað við prestinn á Skarðsströndinni sem lét vinnumann sinn skreppa til Reykjavíkur til að eiga orð við biskupinn.
Einn af fyrstu vorboðunum er þegar fer að heyrast í álftunum. En í morgun brá einum Hörðdælinginum við á leið í gegningarnar þegar hann leit álftahópinn augum.
Fyrst hélt hann að hrafn væri með í hópnum og fannst það furðulegur félagsskapur. En þegar betur var að gáð reyndist vera einn svartur svanur í hópnum. Styggð kom að hópnum og flaug hópurinn inn Hvammsfjörð. Fróðlegt væri að fá frekari fréttir af ferðum fuglsins og myndir vel þegnar.
En eins og margir muna sást einmitt svartur svanur í Mýrdalnum um daginn, sbr. frétt á Vísi.
Fullorðnir svartsvanir, eins og þeir kallast, eru eilítið smærri en álftin. Fiðurhamur fuglsins er svartur, en flugfjaðrirnar eru hvítar. Goggurinn er skærrauður með hvítri þverrönd. Ekki er óalgent að svartsvanir flækist til Íslands úr dýragörðum í Evrópu.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei