Ýmis verkefni vegna vatnavaxta í Dalabyggð

DalabyggðFréttir

Dalabyggð ekki síður en landið allt hefur fundið fyrir áhrifum vatnavaxta sl. daga og hafa verkefnin verið ærin. Má þar meðal annars nefna aurskriður, tjón á vegakerfi, rof á ljósleiðara og foktjón. Samkvæmt viðtali Morgunblaðsins við upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar var ástandið á svæði þjón­ustu­stöðvar­inn­ar í Búðar­dal verst og menn hafi varla séð annað eins.


Úr Saurbæ – eigandi myndar: Ragnheiður Pálsdóttir

Skemmdir eru á flestum vegum á starfssvæði Vegagerðarinnar í Búðardal, ýmist vegna vatnavaxta eða skriðufalla. Talið er að tjón á starfssvæðinu hlaupi á einhverjum milljónum. Starfsmenn þjónustustöðvarinnar í samvinnu við verktaka hafa verið í viðgerðum og bráðabirgðaraðgerðum frá því á mánudaginn sl.
Meðal annars er bráðabirgðarviðgerðum á Laxárdalsvegi (nr. 59) lokið, enn er unnið að viðgerðum við Bakkaá og enn ófært að innstu bæjum í Haukadal. Á Klofningsvegi féllu margar aurskriður og þar er vegurinn ennþá ófær við Ballará, unnið er að viðgerðum. Einnig er nokkrar heimreiðar og vegir að sumarhúsum í Dalabyggð töluvert skemmdar.
Starfsstöðin hefur reynt að forgangsraða viðgerðum eftir mikilvægi og umfangi, eftir stendur að skoða fleiri heimreiðar og er það á áætlun.


Viðgerð í Haukadal – eigandi myndar: Bjarnheiður Jóhannsdóttir

Ljósleiðarakerfi Dalaveitna varð einnig fyrir tjóni, en tilkynning barst um rof á stofnstreng á Skarðsströnd á mánudagsmorgun. Starfsmenn Dalabyggðar fóru og skoðuðu aðstæður ásamt því að líta til með öðrum eignum sveitarfélagsins. Ástæða slits var jarðfall neðan vegar á Tjaldaneshlíðinni skammt frá Fagradal. Aðkoma var erfið og mikil bleyta og drulla á svæðinu. Strax var hafist handa við að kalla til verktaka til uppgraftrar og tengingar sem hófust handa seinni partinn samdægurs.
Samtengingar á ljósleiðara þarf að vinna í þurrum og hreinum aðstæðum og eru öllu jafna gerðar í þar til útbúnum sendibílum. Önnur samtengingin var niðri í flóa þar sem aðeins var hægt að komast með beltatæki eða mikið breytta bíla. Var þá Björgunarsveitin Ósk fengin í þjónustuverkefni, þ.e. að koma með 44“ breyttan LandRover sem sveitin hefur yfir að ráða. Var bílnum komið fyrir og innréttaður með vinnuborði.
Unnið var fram eftir mánudagskvöldi í miklum vindstreng sem var staðbundinn þarna þrátt fyrir að veður hefði gengið niður annars staðar. Áfram var unnið að tengingu á þriðjudagsmorgun og voru allar tengingar komnar inn um hádegisleytið.


Búið að koma LandRover Björgunarsveitarinnar fyrir á Tjaldaneshlíðinni fyrir viðgerð á ljósleiðara

Þá eru nokkur heimili í þeirri stöðu að sorphirða getur ekki farið fram vegna ástands vega/heimreiða. Dalabyggð veit af stöðunni, búið er að eiga samtal við Íslenska gámafélagið og verður gengið í sorphreinsun á þessum heimilum um leið og aðstæður leyfa.

Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar segist þó vona að ekki hafi orðið mikið tjón á húsum og túnum:
„Það er ljóst að þetta mikla vatnsveður og allt í kringum það hefur skapað bæði mikinn vanda og valdið miklu tjóni, bæði á vegakerfinu, ljósleiðaranum okkar og öðrum grunnstoðum. Einnig hefur flætt inn í hús og skriður fallið á tún en vonandi hefur ekki orðið teljandi tjón þó ég viti að girðingar hafi skemmst víða og það kostar sitt að gera við þær. Vonandi næst að vinna úr þessu öllu og vil ég þakka öllum viðbraðgsaðilum þeirra mikla og góða framlag og snör vinnubrögð.“


Í vatnavöxtum gróf Reykjadalsá sig inn í veginn fram að sundlauginni og mátti litlu muna að hitaveiturör færi í sundur – eigandi myndar: Erna Hjaltadóttir

Bjarki bætir við:
„Starfsmenn Vegagerðarinnar í Dalabyggð hafa svo sannarlega staðið vaktina með miklum sóma og vil ég koma þökkum til þeirra um leið og ég kalla eftir því að Vegagerðin og samgönguyfirvöld láti sér ekki detta það í hug að láta þann kostnað sem hlýst af þeim bráðaaðgerðum sem nú verður að grípa til bitna á öðrum nauðsynlegum viðhaldsaðgerðum á vegakerfinu okkar í Dölunum.“


Frá Hömrum – eigandi myndar: Áslaug Finnsdóttir


Sælingsdalur – eigandi myndar: Hjalti Freyr Kristjánsson


Skriða úr Brekkugili – eigandi myndar: Arnar Eysteinsson


Við Lambanes (samanburður) – eigandi myndar: Sjöfn Sæmundsdóttir


Flæðilækur í Saurbæ (samanburður) – eigandi myndar: Sjöfn Sæmundsdóttir


Hjá Hvoli í Saurbæ – eigandi myndar: Ragnheiður Pálsdóttir

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei