Góðar heimsóknir í kjördæmaviku

DalabyggðFréttir

Svokölluð kjördæmavika hefur verið sl. daga, en slíkar vikur eru haldnar svo þingmenn og ráðherrar geti farið um kjördæmi sín og hitt þar sveitarstjórnir, heimsótt fyrirtæki og kjósendur. Á meðan kjördæmavika gengur yfir eru engin þingfundir á Alþingi, næsti þingfundur er á dagskrá 20. febrúar.

Þessi tími er þingmönnum kærkominn og ekki síður kjörnum fulltrúum og íbúum hvers kjördæmis að geta hitt þá bæði á förnum vegi og fundum.

Mánudaginn 13. febrúar komu Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðs­ráðherra og Bjarni Jónsson þingmaður NV-kjördæmis og  formaður utanríkismálanefndar frá Vinstri grænum til fundar við fulltrúa Dalabyggðar. Þar fengu gestirnir góða yfirferð um stöðu sauðfjárbænda í Dalabyggð ásamt því að heyra af núverandi og tilvonandi verkefnum sveitarfélagsins.

Þriðjudagskvöldið 14. febrúar var Samfylkingin í Búðardal, þar sem Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Oddný Harðardóttir þingmaður Suðurkjördæmis, Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður flokksins og Dagbjört Hákonardóttir varaþingmaður, voru með opinn fund á Vínlandssetrinu þar sem tekið var gott samtal um þau málefni sem brenna á íbúum og fulltrúum Dalabyggðar.

Fimmtudaginn 16. febrúar var svo Framsókn með opinn fund á Vínlandssetrinu í Búðardal þar sem Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamála­ráðherra, Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður NV-kjördæmis og Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður NA-kjördæmis mættu. Þar varð einnig gott samtal um helstu málefni sem varða Dalabyggð og íbúa þess.

Það er mikilvægt fyrir íbúa að geta átt samtal við kjörna fulltrúa á Alþingi og var því komið á framfæri við alla gesti. Ráðherrum og þingmönnum er þakkað kærlega fyrir komuna í Dalabyggð.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei