Akstur úr Búðardal í Borgarnes fyrir nemendur og almenning fær hátt í 13 milljónir að styrk

DalabyggðFréttir

Í vikunni barst jákvætt svar frá Byggðastofnun þar sem fengust 12.850.000kr.- í tilraunaverkefni til að samþætta og opna akstur úr Búðardal í Borgarnes fyrir bæði nemendur og almenning. Þannig verður m.a. hægt að bjóða framhaldsskólanemum í Dalabyggð skólaakstur úr Búðardal  í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Markmiðið er að bæta þjónustu við nemendur og almenning sem og að skapa betri nýtingu í rekstri þessara þjónustuþátta.

Það var á fundi fræðslunefndar í september á síðasta ári hófst umræða að nýju um möguleika á samstarfi við framhaldsskóla í landshlutanum til þess að starfrækja hluta náms í Búðardal.
Nefndin var áhugasöm um að kanna málið og funduðu formaður og sveitarstjóri með skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga annarsvegar og hins vegar skólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar.

Í framhaldi bauð nefndin fyrrnefndum skólameisturum á fund sinn og mættu þau á fund nefndarinnar í nóvember. Eftir fund með skólameisturum taldi nefndin að tækifæri væri til staða til að koma á samstarfi með einum eða öðrum hætti.
Þá var einnig rætt að kanna möguleika á stuðningi stjórnvalda við verkefnið ef það færi af stað. Könnun var lögð fyrir nemendur og foreldra í Auðarskóla og var í framhaldi af niðurstöðum hennar samþykkt að óska eftir öðrum fundi með skólameistara Menntaskóla Borgarfjarðar (MB) og loks að taka upp formlegt samtal um samstarf við skólann.

Í framhaldi af þeirri ákvörðun að samstarf yrði við MB var óskað eftir samtali við Pál S. Brynjarsson, framkvæmdarstjóra Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) sem m.a. fór yfir mögulegar útfærslur á akstri framhaldsskólanema til og frá skólanum. Samtal þetta varð til þess að fræðslunefnd óskaði eftir stuðningi og samstarfi við SSV til að sækja um í byggðaáætlun vegna verkefnisins.

Sveitarstjóri Dalabyggðar, Björn Bjarki Þorsteinsson og Ingibjörg Þóranna Steinudóttir, formaður fræðslunefndar funduðu fimmtudaginn 1. júní sl. með Braga Þór Svavarssyni, skólameistara MB og Páli S. Brynjarssyni, framkvæmdarstjóra SSV þar sem tilkynnt var um staðfest fjármagn til verkefnisins og farið yfir næstu skref við útfærslu á akstri framhaldsskólanema.

Aðspurður hvernig honum litist á tilvonandi tilraunaverkefni sagði Bragi:
Við höfum verið svo heppin að alveg frá stofnun MB hefur nokkur fjöldi nemenda úr Dalabyggð sótt til okkar í nám. Þetta verkefni þar sem nemendur geta sótt nám en dvalið lengur heima er frábær nýlunda og sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur í MB að eiga þessa góðu samvinnu við Dalabyggð með það að markmiði að auðvelda aðgengi nemenda að námi í framhaldsskóla. Við hlökkum til.

Af sama tilefni sagði Ingibjörg:
Þessi styrkur frá Byggðarstofnun er að mínu mati alveg gríðarlega stórt og jákvætt skref fyrir Dalabyggð. Góðar samgöngur eru lífæð byggðar og það er mjög verðmætt fyrir sveitarfélagið að geta boðið íbúum sínum upp á framhaldsnám með aðsetur í heimabyggð. Það hefur verið mjög ánægjulegt að vinna að þessu verkefni með Menntaskóla Borgarfjarðar og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og kann ég þeim bestu þakkir fyrir og hlakka til frekara samstarfs.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei