Ályktanir byggðarráðs Dalabyggðar um Íslandspóst og Strætó bs.

DalabyggðFréttir

Á fundi byggðarráðs Dalabyggðar þann 23. september sl. voru eftirfarandi bókanir samþykktar:

Málefni Íslandspósts á landsbyggðinni
Byggðarráð Dalabyggðar tekur undir kröfur Reykhólahrepps og Helgafellssveitar er varða þjónustu Ísalandspósts á landsbyggðinni. Stefna Íslandspósts er snýr að þjónustu fyrirtækisins á landsbyggðinni og þá sérstaklega á Vesturlandi og Vestfjörðum er vonbrigði. Lokun pósthússins í Króksfjarðarnesi, fækkun útburðardaga og tilfærsla póstkassa m.a. í Helgafellssveit sl. vikur eru ekki til þess fallnar að styrkja tiltrú manna á fyrirtækinu og þjónustu þess í hinum dreifðu byggðum.

Byggðarráð Dalabyggðar fer fram á það að stjórn Íslandspósts kynni nú þegar skammtíma- og langtímaáform og markmið fyrirtækisins er varðar póstdreifingu og þjónustu á landsbyggðinni ásamt rökstuðningi fyrir þessum áformum. Sambærileg þjónusta við íbúa landsins óháð búsetu er sjálfsögð krafa og forsenda þess að fólk geti byggt þetta land.


Varðandi tilboð Strætó bs. um kaup á nemakortum fyrir nemendur með lögheimili í Dalabyggð
Dalabyggð er með bréfinu boðið að kaupa nemakort á kr. 31.000 sem gildir til 1. júní 2009 fyrir hvern nema sem er með lögheimili í sveitarfélaginu. Dalabyggð afþakkar þetta boð enda gildir nemakortið í aðeins í rétt rúma 8 mánuði en samkvæmt gjaldskrá Strætó bs. kostar 9 mánaðakort á fullu verði kr. 30.500. Námsmenn sveitarfélagsins þurfa þannig skv. tilboðinu að greiða meira en gjaldskrá segir til um.

Dalabyggð lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðun stjórnar Strætó bs. og telur sjálfsagt að nemar af landsbyggðinni fái gjaldfrjálst í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Það er rétt að benda á þá staðreynd að með uppbyggingu skóla og annarra þjónustustofnanna í höfuðborginni fylgja ákveðnar skyldur við íbúa landsins. Þeim er ekki sinnt með mismunun eftir búsetu.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei