Átak í asparræktun – auglýst eftir áhugasömum ræktendum

DalabyggðFréttir

Mikill og vaxandi áhugi er á skógrækt í landinu og fram hefur komið að skortur er á skógarplöntum til að mæta aukinni eftirspurn. Óvíða eru betri skilyrði fyrir skógrækt en í Dalabyggð og hafa nú nokkrir aðilar tekið höndum saman um að vinna að því að koma á fót plöntuframleiðslu á svæðinu.

Eitt verkefni á því sviði felst í að fá fleiri aðila til samstarfs um framleiðslu á öspum frá stiklingum. Fengist hefur styrkur frá Uppbyggingarsjóði SSV til að hrinda þessu í framkvæmd strax vorið 2023. Ætlunin er að nota styrkinn til að hjálpa mönnum af stað, m.a. með því að leggja til bakka. Ætlunin er að nota 24-holu bakka og að verkefnið kaupi eitt bretti (um 500 bakkar). Þetta þarf að panta og því er mikilvægt að við vitum, sem fyrst líklegan fjölda þátttakenda og áætlað umfang.

Byrjað verður á því að halda námskeið um asparræktun og sýnikennslu/verklegt námskeið um klippingar, meðhöndlun og framkvæmd ræktunarinnar. Námskeiðið er frítt og allir áhugasamir geta tekið þátt í þessu og svo kemur bara í ljós hversu stórtækir menn verða í framkvæmdinni.

Helst er stefnt á að þátttakendur hafi aðgang að gróðurhúsi eða stefni á að koma sér upp slíkri aðstöðu. Þetta er þó ekki skilyrði, þar sem einnig er hægt að framkvæma asparræktunina í góðu
skjóli utanhúss. Víða eru til staðar ónotuð útihús, sem auðvelt er að breyta í köld gróðurhús, með því að skipta út bárujárni á þaki eða veggjum fyrir gegnsætt plast.

Verkefnið verður kynnt á næstunni og auglýst eftir áhugasömum aðilum, sem vilja taka þátt. Stefnt er á að fá a.m.k. 10 þátttakendur og að framleiðsla fyrsta árs yrði samtals um 10.000 plöntur.

Námskeiðið verður svo haldið í byrjun næsta árs og sett upp Facebook síða til að miðla upplýsingum milli þátttakenda.

Stefnt er að því að Facebook síðan geti svo einnig þjónað sem viðskiptavettvangur milli þeirra, sem vilja framleiða og selja asparplöntur og þeirra skógarbænda, sem vilja kaupa plöntur. Stefnt er að því að semja við Skógræktina þannig að skógarbændur með samning geti keypt þessar plöntur, sem gangi upp í, eða verði hluti af plöntuúthlutun ársins.
Reiknað er með að þessi viðskipti yrðu öll innan héraðs og þá milliliðalaus milli framleiðenda og kaupanda. Aðeins þyrfti samþykki skógræktarinnar þar sem það á við. Stórtækum einkaaðilum í skógrækt fer líka mjög fjölgandi og því verður einnig kannað með að gera rammasamning við slíka aðila um að kaupa framleiðsluna.

Þeir sem hafa áhuga á þátttöku geta haft samband við undirritaða.

Jakob K. Kristjánsson, sími: 664-7900, tölvupóstur: jakob.heima@gmail.com 
Sigurbjörn Einarsson, sími: 820-1199, tölvupóstur: sigbj28@gmail.com 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei