Erindi sveitarstjórnar send út

DalabyggðFréttir

Á 190.fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 2.apríl sl. var m.a. fjallað um tengivegi í Dalabyggð og þjónustusamninga við dýralækna á landsbyggðinni.
Á fundinum voru samþykktar samhljóða bókanir sem í framhaldinu hefur verið komið á framfæri við viðeigandi aðila, m.a. ráðherra, þingmenn og Vegagerðina.

Málin voru tekin fyrir í sveitarstjórn í framhalda af því að sveitarfélaginu barst afrit af áskorun íbúa og hagsmunaaðila á Fellsströnd og Skarðsströnd til Vegagerðarinnar þess efnis að ráðast þyrfti í úrbætur á Klofningsvegi. Þá var sveitarstjórn kynnt að starfshópur sem skipaður var til að vinna að tillögum um útfærslur á nýjum þjónustusamningum dýralækna á landsbyggðinni hefði ekki lokið störfum sínum og að gildandi samningar voru aðeins framlengdir til 1. maí n.k.

Bókun vegna tengivega í Dalabyggð:

„Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á Vegargerðina að hefja lagningu bundins slitlags á Klofningsveg nr. 590 sumarið 2020 og skilgreina það sem tilraunaverkefni á landsvísu við að leggja bundið slitlag á malarvegi með sem minnstum hönnunarkostnaði.
Klofningsvegur er lengsti samfelldi tengivegurinn í Dalabyggð og hefur um langt árabil verið sveltur varðandi fjármuni til viðhalds. Vegurinn er nauðsynleg samgönguæð í Dalabyggð og bundið slitlagið getur orðið vítamínsprauta fyrir eflingu byggðar á Fellsströnd og Skarðsströnd. Nýverið var vegurinn skilgreindur sem hluti af Vestfjarðaleið, nýrri ferðaleið um Dali, Vestfirði og Strandir.
Dalabyggð er eins með til skoðunar að flytja Byggðasafn Dalamanna á Staðarfell sem stendur við veginn.
Sveitarstjórn Dalabyggðar bendir jafnframt á að ef framkvæmdin yrði tilraunaverkefni á landsvísu er hægt að hraða uppbyggingu slitlags á tengivegi umtalsvert en það er með öllu óásættanlegt að bíða til ársins 2090 eftir verklokum m.v. núverandi útdeilingu fjármuna.“

Bókun vegna þjónustusamninga við dýralækna:

„Sveitarstjórn Dalabyggðar skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að tryggja dýralæknaþjónustu í dreifbýli Íslands. Ljúka þarf vinnu starfshóps um endurskoðun þjónustusamninga sem fyrst og tryggja sjálfstætt starfandi dýralæknum í dreifbýli ásættanleg starfskjör. Dýralæknar gegna mikilvægu hlutverki varðandi velferð dýra og eru mikilvægur hlekkur í fæðuöryggi Íslands.
Í Dalabyggð er landbúnaður undirstaða byggðar í dreifbýli sveitarfélagsins og sauðburður á næsta leiti. Í þjóðfélaginu ríkir nú mikið óvissuástand vegna heimsfaraldur af völdum COVID-19. Þjónusta dýralækna í dreifbýli er grunnþjónusta sem þarf að tryggja án röskunar og þeim upplýsingum þarf koma til bænda sem fyrst og eyða allri óvissu um málið tafarlaust.“

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei