Frá 30 ára afmæli Dalabyggðar þann 11. júní 2024

DalabyggðFréttir

Í gær, þriðjudaginn 11. júní 2024 varð sveitarfélagið Dalabyggð 30 ára.

Í tilefni af deginum voru fundarhöld færð yfir í Dalabúð. Dagskráin hófst á sameiginlegum fundi sveitarstjórnar og ungmennaráðs. Þar brýndu ungmennin fyrir kjörnum fulltrúum m.a. mikilvægi fovarnarfræðslu og íþrótta ásamt því að fara yfir þýðingu verklegrar kennslu fyrir nemendur og áhrif skólalóða á leik og þroska.

Við þökkum ungmennaráði kærlega fyrir vaska framgöngu á fundinum og þau mál sem lögð voru fram. Í lok fundar var borin upp tillaga að vísa öllum málunum til sveitarstjórnar Dalabyggðar og var það samþykkt samhljóða.

Eftir stutt hlé hófst svo 247. fundur sveitarstjórnar Dalabyggðar.
Á fundinum var Ingibjörg Þóranna Steinudóttir kjörin oddviti Dalabyggðar til eins árs og Þuríður Jóney Sigurðardóttir varaoddviti.
Einnig var kosið í byggðarráð til eins ár og er skipan þess nú: Skúli Hreinn Guðbjörnsson (formaður), Garðar Freyr Vilhjálmsson (varaformaður) og Guðlaug Kristinsdóttir.  Þuríður Jóney Sigurðardóttir, Einar Jón Geirsson og Ingibjörg Þóranna Steinudóttir eru jafnframt varamenn í byggðarráði.

Ýmis mál voru tekin fyrir en það sem hæst bar er eflaust „Íþróttamannvirki í Búðardal 2024“.

Byggðarráð hafði á fundi sínum daginn áður afgreitt samninga um framkvæmd og eftirlit ásamt því að staðfesta lánsloforð frá Lánasjóði sveitarfélaga vegna fjármögnunar framkvæmdarinnar upp á 950 m.kr.-

Á þessum hátíðarfundi sveitarstjórnar var svo samningur við Eykt ehf. um framkvæmdina lagður fram til afgreiðslu og samþykktur samhljóða sem og samningur við Eflu varðandi umsjón og verkeftirlit vegna framkvæmdarinnar. 

Að loknum fundi sveitarstjórnar var gengið að tilvonandi byggingarstað íþróttamannvirkjanna þar sem samningar við Eykt og Eflu voru undirritaðir. Þá voru 10 dugleg börn sem iðka íþróttir í Dalabyggð fengin til að taka fyrstu skóflustungu að tilvonandi mannvirkjum.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei