Frá aðalfundi Skógræktarfélags Dalasýslu

DalabyggðFréttir

Þann 1. september sl. mættu í Dalabúð í Búðardal 17 manns á aðalfund Skógræktarfélags Dalasýslu. Starfsemi félagsins hefur legið niðri um nokkurt skeið og hafa nokkrir einstaklingar tekið frumkvæði að því að blása lífi í  félagið.  Einkar góð stemming var á fundinum og var hugur í fólki.

Eftirtaldir einstaklingar voru kosnir í stjórn félagsins:

Jakob K. Kristjánsson
Sigurður Ólafsson
Sigurbjörn Einarsson
María G. Líndal
Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Stjórn félagsins mun koma saman fljótlega og skipta með sér verkum og bretta upp ermar.

Á fundinum kynnti Jakobs K. Kristjánssonar á Hóli í Hvammssveit hugmyndir um næstu verkefni félagsins og ýmislegt sem er í deiglunni varðandi skógrækt í Dölum.

Mikilvægt er að laða fólk að félaginu, vinna upp og skerpa línur varðandi félagalistann.

Þau sem vilja skrá sig í félagið og aðrir sem vilja fríska upp veru sína í því er boðið að smella á tengilinn hér neðar, fylla út formið sem þá birtist og senda það inn. Sigurbjörn Einarsson (Tungu í Sælingsdal), væntanlegur ritari félagsins mun halda utan um félagaskrána.

SKRÁNING Í SKÓGRÆKTARFÉLAG DALASÝSLU

Skógræktarfélag Dalasýslu var stofnað á fundi í Búðardal 2. maí 1948 og voru félagsmenn 168 við stofnun þess.  Félagið varð strax aðili að Skógræktarfélagi Íslands. Meðal upphaflegra markmiða skógræktarfélagsins var m.a. “að stuðla að friðun skógarleifa og ræktun nytjaskóga í sýslunni. Koma á þann hátt í veg fyrir uppblástur lands og endurheimta þau hlýindi, sem skógar skapa og skartklæði þau, sem eitt sinn treystu tryggðaböndin milli Dalamannsins og Dalabyggðarinnar.”

Svo skemmtilega vill til að enn er til á prenti eintak af “Tíðindum frá Skógræktarfélagi Dalasýslu” frá 1951, þar sem segir frá stofnun félagsins og upphaflegum markmiðum og hugleiðingum þeirra sem að því stóðu um mikilvægi og gildi skógræktar fyrir Dalamenn. Óhætt er að segja að flest sem þar er sagt er enn í fullu gildi. Félagið hefur síðan starfað af mismiklum krafti í gegnum árin og stóð það fyrir flestum ef ekki öllum þeim skógarsvæðum og skógarreitum, sem nú eru sjáanleg í Dalabyggð. Mörg þessara svæða eru nú góður minnisvarði um þetta starf frumkvöðlanna og þeirra sem tóku við kyndlinum í gegnum árin. Lítil starfsemi hefur þó verið nokkuð lengi í félaginu en skógarnir vaxið jafnt og þétt upp á meðan. Nú er svo komið að margir af þessum skógum eru nú orðnir vöxtulegir og þarfnast umhirðu til að þeir njóti sín eins og að var stefnt. Ekki er lengur sama þörf og áður til þess að áhugamannafélög standi fyrir mikilli útplöntun, en þeim mun mikilvægara að sinna eldri skógarreitum, til að gera þá aðgengilega og þeir verði þannig héraðinu og íbúum þess til sóma og yndisauka. Verkefni nýrrar stjórnar er m.a. að uppfæra félagalista félagsins og að laða sem flesta meðlimi í félagið.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei