Frá fulltrúum íbúa í DalaAuði

SafnamálFréttir

Áfram við!

Við erum einstaklega ánægð með mikinn áhuga og eldmóð í stefnumótun DalaAuðs, sem þið tókuð svo mörg þátt í, bæði á íbúaþinginu í vor og fundinum um daginn, þar sem stefnan og verkefnin voru fest í sessi.

Það er komið að ykkur

Nú er búið að opna Frumkvæðissjóð og þannig gera ykkur kleift að vinna að allskonar góðum og skemmtilegum málefnum, sem bæta okkar góða samfélag enn meira. Því við í verkefnisstjórninni erum ekki að taka boltann og framkvæma þetta allt, heldur þið. Virkir og jákvæðir íbúar eru lykillinn að góðu samfélagi og þetta verkefni er áburðurinn, sem nærir. Langi ykkur að halda viðburði, bæta umhverfið eða stofna til fyrirtækjarekstrar, þá er Frumkvæðissjóðurinn tiltækur, gjörið svo vel!

Hún Linda, sem við vorum svo lánsöm að fá til okkar hjálpar til við umsóknarskrif og er einnig vís til að benda á fleiri leiðir en þennan sjóð til að stækka og efla verkefni.

En svo er líka hægt að gera allskonar skemmtilegt, án þess að það kosti peninga. Hvetjum við eindregið til þess að íbúar hugi að náunganum, umhverfinu, félagslífinu og tækifærum sem Dalirnir búa yfir.

Það er komið að stjórnvöldum

Vinnan ykkar og okkar er líka frábær leiðarvísir fyrir sveitarstjórnina og við hvetjum hana til dáða í þeim verkefnum sem snúa að henni, en hvetjum ekki síður þingmenn kjördæmisins og önnur stjórnvöld til að standa sig gagnvart Dalabyggð og innviðum samfélagsins okkar.

Það er nefnilega komið að okkur í svo mörgu. Við eigum það inni. Við erum ekki til í að vera með flesta malarvegina lengur. Við erum ekki til í að hafa ótryggt rafmagn og við viljum geta kallað út viðbragðsaðila, sama hvar í Dölunum við slösum okkur.

Kveðja,

Þorgrímur og Bjarnheiður, fulltrúar íbúa í stjórn DalaAuðs

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei