Gleðilega þjóðhátíð – pistill sveitarstjóra

DalabyggðFréttir

Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir velunnarar Dalanna.

Um leið og ég óska okkur öllum gleðilegrar hátíðar í tilefni 17. júní þá langar mig til að stikla á stóru varðandi það sem helst hefur verið á döfinni á vettvangi Dalabyggðar síðustu daga og vikur og einnig að koma inn á það sem er í farvegi á næstunni og byggi þessa mola mína að mestu á skýrslu sveitarstjóra sem framlögð var á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar þann 15. júní.

Skólaslit Auðarskóla fóru fram þann 2. júní. Undirritaður náði að vera viðstaddur fyrri hluta skólaslitanna og hlýddi á ræðu skólastjóra og tónlistarflutning nemenda sem stóðu sig afburða vel. Það voru auglýstar all margar lausar stöður við skólann og er nú verið að vinna úr umsóknum og fara yfir skipulag einstakra verkefna. Nokkrar af þessum stöðum sem auglýstar voru þurfti að auglýsa þó mannaðar væru og þá m.t.t. fagmenntunar. Verið er að undirbúa útboð á rekstri mötuneytis grunn- og leikskólans og fer það í loftið í næstu viku. Einnig er verið að skoða fyrirkomulag varðandi þrif í grunnskólanum.

Talandi um skólamál þá erum við í viðræðum við aðila um skólaþjónustu Auðarskóla til aðstoðar og þá varðandi kennsluhætti og aðra stoðþjónustu. Vonandi nást lyktir í það samtal nú á næstu vikum þannig að við getum hafið nýtt skólaár með stoðkerfið skólans okkar mikilvæga fullmótað.

Viðræður við Akraneskaupstað varðandi þjónustu og samstarf í barnaverndarmálum er nú á lokametrum og vonir standa til að samningsdrög verði tilbúin innan skamms. Von mín stendur til að þetta samkomulag verði upptaktur að því að samstarf á Vesturlandsvísu komist á þannig að þessum málaflokki verði þannig fyrir komið í framtíðinni að sameiginleg barnaverndarþjónusta verði í landshlutanum öllum. Eftir sem áður mun Samskiptastöðin sinna dags daglegum verkefnum með þörf krefur.

Fyrir skömmu fór í loftið auglýsing um nýtt starf verkefnisstjóra fjölskyldumála líkt og byggðarráð og sveitarstjórn höfðu samþykkt að koma á fót. Umsóknarfrestur er til 26. júní n.k. og verður spennandi að sjá hver viðbrögðin verða.

Við vorum svo lánsöm hér í Dalabyggð að kjarabarátta sú sem átti sér stað í byrjun júní hafði ekki áhrif á starfsemi okkar stofnana. Samningar hafa nú náðst á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og BSRB en Dalabyggð eins og langflest sveitarfélög hefur falið Sambandinu samningsumboð sitt þannig að starfsmenn Dalabyggðar innan BSRB fá nú kjarabætur eins og flestir starfsmenn hafa nú þegar fengið það sem af er ári. Vonandi nást síðan langtímasamningar næsta vetur þegar núverandi samningar flestir losna, mikilvægt er að meiri ró skapist á vinnumarkaði en verið hefur þó við í Dalabyggð getum ekki kvartað, hér hefur verið ró og spekt og engin verkföll og vonandi verður svo áfram.

Nú hefur fengist formlegt samþykki að aðild Dalabyggðar að félagsþjónustu Reykhóla og Stranda. Viðræður um endanlega útfærslu fara nú í gang og er stefnt að því ef allt fer sem horfir að tillaga að breyttum samþykktum sveitarfélagsins verði kynnt í ágúst eða september.

Varðandi samstarfsverkefni okkar með Reykhólum og Ströndum í skipulags- og byggingarmálum þá hefur VSÓ kynnt sína fyrstu sviðsmynd að tillögu þess málaflokks. Er það skipulag að miklu leiti með svipuðu formi og gengið hefur vel á Suðurlandi undanfarin ár. Það sama er upp á teningnum hér og varðandi félagsmálin. Samtalið er í gangi og ef vel gengur þá verður komin fram tillaga að breyttum samþykktum Dalabyggðar á fundi í ágúst eða september.

Samþykkt hefur verið að framlengja samning við Íslenska Gámafélagið varðandi úrgangsmál/sorphirðu/rekstur gámasvæðis um ár og hefur verktakinn samþykkt það. Við eigum fund með fulltrúum verktaka í næstu viku varðandi stöðu einstakra mála og eins varðandi útfærslu á því hvernig rétt er að standa að því mögulega að taka inn fjórðu tunnuna eins og rætt hefur verið um að gera. Hvernig það fer á eftir að koma í ljós.

Undirritaður átti fund með fulltrúum Vegagerðarinnar núna í vikunni varðandi umferðaröryggi og umferðarhraða hér í gegnum Búðardal. Í kjölfar þess fundar fékk ég staðfest að sett verða upp að nýju tæki sem mæla umferðarhraða og láta ökumenn vita af því við innkeyrslu beggja vegna. Einnig á að skipta út merkingum á umferðareyjum og setja upp skilti við gangbrautar beggja vegna. Einnig er til skoðunar hvernig og hvort rétt sé að setja upp frekari hraðahindranir við aðkomuna beggja vegna og eigum við von á viðbrögðum við því á næstunni.

Vegagerðin opnaði tilboð í Klofningsveg í vikunni, fjögur tilboð bárust í þennan 8,5 km. kafla og er vonandi að Vegagerðin gangi fljótt til verka og semji um verkið á næstunni. Við munum þrýsta á í kjölfarið að reynt verði að lengja þann kafla sem um ræðir eins og kostur er, ekki veitir af.

Það er ljóst að vegamálin verða okkur ofarlega í huga á næstunni, eins og reyndar oft áður, því eins og rætt var hér fyrr á fundinum þá voru drög að Samgönguáætlun kynnt í vikunni og svo hefur atvinnumálanefndin okkar ekki setið auðum höndum undanfarnar vikur. Sú skýrsla sem nefndin og starfsmaður hennar hefur unnið að mun reynast okkar afar dýrmæt í viðræðum okkar við vegayfirvöld og stjórnvöld öll á komandi misserum, hafið kæra þökk fulltrúar í atvinnumálanefnd og starfsmaður nefndarinnar.

Samtal við heilbrigðisráðuneytið varðandi uppsögn á samningi um rekstur hjúkrunar- og dvalarrýma á Silfurtúni er nú hafið. Er það markmið okkar, eins og fram hefur komið, að það sama gildi um okkur og hefur gerst annarsstaðar á landinu þar sem sveitarfélög skila rekstrinum að viðkomandi heilbrigðisstofnun í landshlutanum yfirtaki reksturinn.

Hafin er vinna samkvæmt umbótaáætlun fyrir Silfurtún í kjölfar úttektarskýrslu sem unnin var af Embætti landlæknis. Er það verkefnastjóri hjúkrunar á Silfurtúni sem heldur utan um daglega framkvæmd þeirrar vinnu.

Varðandi sölu eigna þá er stefnan að jörðin Sælingsdalstunga fari í sölumeðferð í lok júní. Afmörkun landamerkja og aðrir þættir hafa tafið þá aðgerð. Íbúð á Sunnubraut 1 er komin á söluskrá. Ekki hefur enn tekist að selja félagsheimilið að Staðarfelli en vonandi kemst skriður á það mál í sumar.

Undirritaður fór ásamt öðrum fulltrúum frá Dalabyggð á fund á vegum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands í Stykkishólmi fyrir stuttu þar sem til umfjöllunar voru fráveitumál á Vesturlandi. Umsjónarmaður framkvæmda hjá okkur í Dalabyggð kynnti þar stöðu mála hjá okkur í Dalabyggð. Mikilvægt er að við komumst af stað í framhald á vinnu við fráveituna okkar hér í Búðardal í sumar því tæki og búnaður er kominn til okkar og því ekkert að vanbúnaði þegar skipulagsmál klárast.

Undirritaður ásamt tómstundafulltrúa fundaði með fulltrúum félags eldri borgara fyrir stuttu. Til skoðunar er hvort og þá hvar félagið fái aðstöðu í húsakynnum Dalabyggðar. Boltinn er nú hjá félagi eldri borgara en nefndir voru valkostir til skoðunar á fundinum og er planið að við hittumst aftur áður en starf félagsins fer af stað að nýju þegar sumri hallar.

Nú í vikunni hófst starfsemi vinnuskólans okkar. Það hefur viðrað vel á hópinn okkar þessu fyrstu daga og nú þegar ber umhverfið okkar þess merki að hópurinn er farinn af stað. Búið er að mála bílastæði og snyrta umhverfið hér við Miðbrautina. Sigríður Jónsdóttir fer fyrir hópnum og greinilegt að er þar er vel skipað í stöðu.

Áfram í umhverfismálunum en nú er sláttur hafinn á vegum Dalabyggðar og er það Helgi Fannar og hans fólk sem mun sjá um slátt á vegum Dalabyggðar í sumar. Einnig er ómetanlegt það framlag sem Svavar Garðarsson veitir samfélaginu okkar hvað varðar slátt og aðra umhirðu opinna svæða. Á Svavar miklar þakkir skildar fyrir sitt óeigingjarna starf.

Nokkur umræða hefur orðið um tímasetningu smölunar fjár í haust og eins varðandi stöðu er varðar ágangsfé. Ekki er útlit fyrir að verði neinar breytingar í haust hvað varðar tímasetningu leita og rétt. Varðandi ágangsfé og stöðu sveitarfélaga í þeim efnum þá er boltinn enn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytum hvað varðar einhver viðbrögð í þeim efnum. Meðan staðan er sú er ekki tilefni fyrir Dalabyggð né önnur sveitarfélög að taka frumkvæðið í þeim efnum.

Undirritaður ásamt verkefnastjóra/staðgengli sveitarstjóra áttum fund með framkvæmdastjóra Leigufélagsins Bríet í vikunni. Farið var vítt og breytt yfir frekari möguleika hvað varðar samstarf á milli Dalabyggðar og félagsins. Þörf er á frekari uppbyggingu húsnæðis í Búðardal og skiptir þetta samtal miklu máli í þeim efnum.

Varðandi húsnæðismál þá eru framkvæmdirnar við Bakkahvamm 15 nú á lokametrunum og þrjár glæsilegar íbúðir að nálgast þá stöðu að hægt verði að flytja inn. Unnið er nú að tengingunum og lögnum út í götu og verður vonandi í kringum mánaðamótin næstu hægt að fara undirbúa allan frágang þessarar mikilvægu framkvæmdar.

Í lok maí kom til okkur hópur frá Háskólanum á Bifröst og stoppaði hjá okkur í Nýsköpunarsetrinu okkar og átti við okkur samtal um stöðuna í Dalabyggð og öll þau tækifæri og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Það er gaman að finna að Dalirnir og hvað við erum að gera er að vekja athygli og umtal og hvetur það okkur til áframhaldandi vinnu á þeim nótum sem við höfum lagt, með samheldni og sóknarhug að vopni.

Starfsmenn í stjórnsýslu Dalabyggðar áttu góðan vinnufund fyrir stuttu þar sem farið var yfir og fengnir góðir gestir til að ræða við um sóknarfæri í gerð verkferla, rafræna stjórnsýslu og uppbyggingu fræðsluáætlunar. Er stefnan að halda þeirri vinnu áfram í haust og koma á fræðsluáætlun og að byggja upp starfsmannahandbók með verkferlum þannig að ekki verði „glufur“ í starfsemi og afgreiðsluháttum sveitarfélagsins.

Eins og kynnt hefur verið þá barst jákvætt svar frá Byggðastofnun þar sem fengust kr. 12.850.000,- í tilraunaverkefni til að samþætta og opna á akstur úr Búðardal í Borgarnes fyrir bæði nemendur og almenning. Þannig verður m.a. hægt að bjóða framhaldsskólanemum í Dalabyggð skólaakstur úr Búðardal  í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Markmiðið er að bæta þjónustu við nemendur og almenning í Dalabyggð. Þetta er mikið fagnaðarefni að þessi stuðningur hafi fengist og vonandi tekst okkur í sameiningu að gera þetta verkefni þannig úr garði að það sé komið til að vera.

Fimmtudaginn 1. júní sl. var úthlutað úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs og var úthlutunarhátíðin haldin í Nýsköpunarsetrinu okkar. Þetta var í annað sinn sem úthlutað var úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs og voru 12.250.000 krónur til úthlutunar að þessu sinni líkt og í fyrra sinnið og fengi 21 verkefni styrk í þetta sinn. Vil ég óska styrkhöfum til hamingju hér eins og á úthlutunarhátíðinni, öll eru þessi verkefni jákvæð á sinn hátt Dalabyggð til heilla.

Undirritaður fékk þann heiður í lok maí  að taka fyrstu skóflustungu að jarðhýsi sem reisa á að Eiríksstöðum. Verkfærið sem notað var er svokallaður trépáll, eða reka, sem til er á Eiríksstöðum og var einmitt verkfærið í svona vinnu á landnámsöld.

Minjavernd ehf. bauð fulltrúum Dalabyggðar í heimsókn inn í Ólafsdal upp úr miðjum maí. Það var mjög áhugavert að fá að kynna sér áform Minjaverndar um hvert skuli stefna í uppbyggingu þessa merka staðar. Með þess sem var rætt var að Minjavernd sér ekki fyrir sér annað en að félagið/fyrirtækið klári uppbyggingu en fá svo fagaðila að rekstri í framhaldinu. Einnig var rætt um endurbætur á vegi inn daglinn og mikilvægt væri að aðilar töluðu einum rómi gagnvart vegayfirvöldum varðandi það að það fjármagn sem í endurbætur færi fengjust úr öðrum sjóði en svokölluðum tengivegapotti. 

Nú er unnið að því að uppfæra sérfræðiálit vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja og er stefnan sú að það liggi fyrir um næstu mánaðarmót. Ýmsar breytur í rekstri Dalabyggðar hafa breyst frá því í febrúar sl. þegar fyrra álit var unnið. Vextir og fjármagnskostnaður er enn mjög hár og 13. stýrivaxtahækkunin dró þar ekkert úr. Engu að síður hefur Lánasjóður sveitarfélaga nú gefið færi á samtali um mögulega lántöku úr þeim flokki sem Dalabyggð hentar, þ.e. lán til 33 ára, en fyrr á árinu var einungis um að ræða lántöku úr lánaflokki með 16 ára lánstíma, sá endur- og uppgreiðslutími er of stór biti fyrir rekstur Dalabyggðar. Einnig hefur verið opnað á viðræður um fjármögnun frá öðrum aðilum en LS þannig að vonandi færumst við nær því að geta fjármagnað þessa mikilvægu framkvæmd á eins ásættanlegum kjörum og hægt er.

17. júní hátíðarhöldin n.k. laugardag munu fara fram hér við og umhverfis húsnæði Dalabyggðar að Miðbraut, sú dagskrá hefst kl. 11:00. Það er Skátafélagið Stígandi sem hefur veg og vanda að undirbúningi ásamt verkefnastjóra okkar og kl. 13:00 verður Glímufélag Dalamanna með sýningu og dagskrá í tilefni af 25 ára afmæli félagsins í Dalabúð. Ég hvet alla íbúa Dalabyggðar og gesti okkar til þátttöku og fagna þessum hátíðisdegi okkar.

Það eru margþætt viðfangsefni hjá okkur í Dalabyggð og er hér aðeins stiklað á stóru og alls ekki hægt að nefna allt sem inn á borð okkar starfsmanna Dalabyggðar kemur. Margt er háð trúnaði sem ber að virða.

Við gerum okkar besta til að miðla fréttum af því sem er á döfinni hverju sinni og af nógu er að taka sem betur fer. Verkefnin eru mörg og langflest skemmtileg þannig að við horfum björtum augum fram á veginn nú þegar sumarið er loksins komið til okkar. Dalabyggð er samfélag í sókn með kröftugt fólk innanborðs. Stöndum saman kæru íbúar og stuðlum að því að komandi misseri færi okkur enn fleiri tækifæri, samfélaginu í Dölunum til heilla.

Gleðilega þjóðhátíð.

Björn Bjarki Þorsteinsson

sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei