Helgin 24.-25. mars

DalabyggðFréttir

Um helgina verður ýmislegt um að vera hér í Dölum. Á laugardag verður skólaþing Auðarskóla og karlakórinn Heimir kemur í heimsókn. Á sunnudag eru síðan vetrarleikar Glaðs.

Skólaþing Auðarskóla

Skólaþing Auðarskóla verður laugardaginn 24. mars í Dalabúð og hefst kl. 10.
Tilgangur þingsins er að auka samræðu í samfélaginu um skólamál, efla skólastarf og afla upplýsinga sem nýtast í starfi skólans og stefnumótun sveitarfélagsins.
Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að mæta, en þingið er opið öllum opið sem áhuga hafa á skólamálum í sveitarfélaginu.
Vikuna fyrir þingið munu nemendur í eldri bekkjardeildum skólans þinga og verða niðurstöður þeirra birtar á þinginu.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Auðarskóla.

Karlakórinn Heimir

Karlakórinn Heimir úr Skagafirði verður með tónleika í Árbliki laugardaginn 24. mars, kl. 20:30.
Á dagskrá kórsins er m.a. útsetning Páls Pampicklers Pálssonar á Sprengisandi Kaldalóns, Dýravísur Jóns Leifs og Ferðasálmur Hallgríms Péturssonar í útsetningu Smára Ólafssonar, Kvöldvísa Hallgríms Péturssonar í karlakórsútsetningu Tryggva Baldvinssonar og margt fleira.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Heimis.

Vetrarleikar Glaðs

Vetrarleikar Glaðs verða haldnir í Búðardal sunnudaginn 25. mars og hefjast kl. 12.
Í reiðhöllinni verður keppt í pollaflokk í tvígangi. Á keppnisvellinum verður keppt í opnum flokki í fjórgangi, tölti og 100 m skeiði. Í barna-, unglinga- og ungmennaflokkum verður keppt í tölti.
Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu Glaðs.

Annað

Fyrir þá sem dagskráin innansveitar dugar ekki er ýmislegt um að vera í nágrannasveitarfélögunum.
Í Logalandi, Reykholtsdal er Ungmennafélag Reykdæla að sýna revíuna „Ekki trúa öllu sem þú heyrir“ eftir Bjartmar Hannesson. Leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson. Næstu sýningar eru á föstudags- og laugardagskvöld kl. 20:30.
Í Stykkishólmskirkju halda kennarar tónlistarskólans tónleika á föstudagskvöld kl. 20. Á tónleikunum verður fjölbreytt tónlist, gömul og glæný. Heyra má hinum ýmsu hljóðfærum, söng, píanó, orgel, óbó, gítar, bassa, slagverk og fleira.
Leikfélag Menntaskóla Borgarfjarðar frumsýnir Stútungassögu, í leikstjórn Stefáns Benedikts Vilhelmssoar, föstudaginn 23. mars í Hjálmakletti. Stútungasaga byggir á gamansaman hátt á fornsögunum, einkum Sturlungu. Önnur sýning verður á sunnudag.
Vesturlandssýning hrossa 2012 er í Faxaborg á laugardagskvöldið með mikilli dagskrá.
Og eflaust má finna sér margt fleira til dundurs ef grannt er skoðað.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei