Húsmæðraskólinn á Staðarfelli

DalabyggðFréttir

Mánudaginn 30. apríl kl. 18:30 býðst Dalamönnum og nágrönnum tækifæri til að ganga um húsnæði Húsmæðraskólans á Staðarfelli í boði Byggðasafns Dalamanna, Héraðsskjalasafns Dalasýslu, bygginga- og skipulagsfulltrúa Dalabyggðar og ekki síst með dyggum stuðningi Sveins og Þóru bænda á Staðarfelli og Ríkiseigna.

Dagskráin hefst á að Bogi Kristinsson byggingafulltrúi mun í stuttu máli segja frá byggingunni og Valdís Einarsdóttir safnvörður og héraðsskjalavörður segja frá aðdraganda að stofnun skólans og sögu skólans. Þá gefst gestum kostur á að ganga um bygginguna og skoða. Skólahúsið er á þremur hæðum og kjallari undir öllu húsinu.  Elsti hlutinn er frá 1912-13.

Margir Dalamenn eiga minningar frá þeirri ágætu stofnun, nemendur, sveitungar og fjöldi vonbiðla er sveimuðu um staðinn. Síðan eru allir hinir sem hafa heyrt sögur frá úr skólanum en ekki náð þeim aldri að hafa átt tækifæri á að koma í skólann. Líklega hefur húsnæðið ekki verið opið almenningi síðan síðustu nemendur skólans voru útskrifaðir vorið 1976.

Allir eru velkomnir á Staðarfell mánudagskvöldið 30. apríl, Staðarfellsmeyjar, Dalamenn og aðrir velunnarar skólans.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei