Íslandsmeistaramót í hrútadómum

DalabyggðFréttir

Níunda Íslandsmeistaramótið í hrútadómum verður haldið laugardaginn 20. ágúst kl. 14 í Sauðfjársetrinu Sævangi.
Hrútadómarnir fara þannig fram að Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur og dómnefnd meta fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð.
Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir.
Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu fara hins vegar eftir stigakerfi sem bændur og sauðfjáraðdáendur gjörþekkja.
Afar veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum. Til dæmis hafa þrír efstu í flokki vanra þuklara meðal annars fengið nokkra skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingastöð Vesturlands.
Nóg annað verður og um að vera. Ókeypis verður inn á sýningu Sauðfjársetursins, líf og fjör utandyra og skemmtiferðir í dráttarvélavagni.
Gestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af hungri. Í hádeginu verður kjötsúpa og síðan veglegt kaffihlaðborð meðan á keppninni stendur. Um kvöldið verður síðan hægt að kíkja á veglegt matarhlaðborð hjá Café Riis á Hólmavík.
Um kvöldið verður haldið Þuklaraball í félagsheimilinu á Hólmavík með hljómsveitinni Upplyftingu.

Heimasíða Sauðfjárseturs á Ströndum

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei