Jólakúlujól 2020

DalabyggðFréttir

Það er ljóst að fyrir marga verða jólin í ár frábrugðinn því sem við erum vön, líkt og með annað á þessu ári.
Samt sem áður höfum við ýmsa möguleika á því að gleðjast saman, þó ekki fleiri en 10 saman, því samkvæmt þeim reglum sem við fylgjum til 12. janúar þá mega ekki fleiri vera í hverri jólakúlu. Börn fædd 2005 og yngri teljast ekki með í þessari tölu og ekki heldur þeir sem hafa fengið COVID-19.

Við erum öll almannavarnir og til að leggja okkar af mörkum skulum við eiga góðar stundir í okkar jólakúlu, vernda viðkvæma hópa, nýta tæknina til samverustunda og til að athuga með vini og ættingja. Sýnum varúð í ferðalögum milli landshluta og sýnum sérstaka aðgát dagana fyrir jólahald og/eða jólaboð. Geymum handabönd, faðmlög og kossa til betri tíma.

Áfram er mikilvægt að viðhafa grundvallarsmitgát. Þvoum og sprittum hendur, þrífum sameiginlega snertifleti, höldum fjarlægð eða notum grímu ef það er ekki hægt. Ef við finnum fyrir einkennum sem bent geta til COVID-19 þá er mikilvægt að vera heima og hafa samband við heilsugæsluna, verum í einangrun á meðan beðið er eftir niðurstöðu sýnatöku.

Eflaust eru margir orðnir þreyttir á ástandinu en það er mikilvægt að fara eftir tilmælum, ekki bara til að vernda sig sjálfa(n) heldur einnig þá sem okkur þykir vænt um og viðkvæma hópa.

Við minnum á vefsíðuna www.covid.is þar sem má nálgast upplýsingar og efni tengt COVID-19.
Við erum öll almannavarnir og við getum þetta – saman.

 

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei