Jólakveðja sveitarstjóra Dalabyggðar 2023

DalabyggðFréttir

Ágætu íbúar Dalabyggðar og aðrir velunnarar Dalanna einu og sönnu.

Um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar með þökk fyrir góð samskipti á árinu sem senn er á enda þá langar mig til að stikla á stóru varðandi það sem helst hefur verið á döfinni á vettvangi Dalabyggðar á árinu 2023 og eins að koma aðeins inn á það sem er í farvatninuá næstunni.

Vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlunargerð fyrir árin 2024 til 2027 er nú lokið og var áætlunin afgreidd á fundi sveitarstjórnar þann 7. desember sl. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að vinnunni og þeim sem mættu á kynningarfundina kærlega fyrir. Dalabyggð er sjálfbær í sínum rekstri og áætlanir okkar gefa fyrirheit um framhald á þeirri stöðu þrátt fyrir mjög metnaðarfull áform hvað varðar uppbyggingu innviða þ.m.t. uppbyggingu íþróttamannvirkja.

Á árinu hefur einmitt ýmislegt unnist í framkvæmdum og endurbótum á eignasafni okkar og má þar nefna helst endurbætur á skólahúsnæði, vinnu við gatnagerð, áframhald á vinnu við fráveitukerfi, lagfæringar á réttum og einstaka húseignum svo eitthvað sé nefnt. Einnig var mikilvægum áfanga náð þegar nýtt aðalskipulag Dalabyggðar fram til 2032 var staðfest sl. sumar.

Það hafa orðið talsverðar breytingar á eignarsafni Dalabyggðar á árinu en stefna sveitarfélagsins hefur verið að draga saman seglin sem fasteignaeigandi. Þannig var á árinu íbúð Dalabyggðar við Sunnubraut, jörðin Sælingsdalstunga og félagsheimilið Staðarfell selt ásamt því að Leigufélagið Bríet ehf. hefur tekið yfir eignir við Stekkjarhvamm og Gunnarsbraut gegn yfirtöku á eignum og skuldum Dalabyggðar og eignarhlut (1,54%) í leigufélaginu. Dalabyggð mun þó styðja við áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu m.a. með því að tryggja aðgengi að hagkvæmum lóðum m.a. vegna fyrirhugaðrar íbúðauppbyggingar Leigufélagsins Bríetar í Dalabyggð.

Undirritaður hefur átt fundi með ýmsum hagsmuna- og þjónustuaðilum á árinu en það er partur af daglegum verkefnum sveitarstjóra og sem og ýmissa annarra starfsmanna Dalabyggðar sem ekki má vanmeta. Fulltrúar Dalabyggðar hafa einmitt farið í nokkrar heimsóknir á árinu enda mikilvægt að við kynnumst starfi og verkefnum annars staðar um leið og við förum um sem sendiherrar okkar góða sveitarfélags. Má þar nefna sameiginlegan fund þeirra 5 sveitarfélaga er eiga með sér samstarf um skipulags- og byggingarmál sem haldinn var á Hólmavík í byrjun nóvember og heimsókn í Snæfellsjökulsþjóðgarð þann 28. nóvember sl. Dalabyggð ítrekar þakkir fyrir góðar móttökur og umræður alls staðar þar sem við höfum komið.

DalaAuður hefur haldið áfram af fullum krafti á árinu og þann 14. nóvember sl. var einmitt haldinn vel heppnaður íbúafundur verkefnisins. Það var gott og gaman að finna þann samhljóm og vilja til verka sem einkenndi fundinn sem er akkúrat það sem DalaAuður gengur út á í hnotskurn.

Nýsköpunarsetrið okkar heldur áfram að styrkjast, það sem af er ári hafa verið haldin fræðsluerindi, námskeið, fundir, kynningar, viðveru ráðgjafa og „kaffspjallsfundir“ er varða hin ýmsu málefni og samfélagsþætti, þá er setrið einnig nýtt sem miðstöð fjarprófa framhalds- og háskólanema í samstarfi við Símenntun á Vesturlandi.

Ýmsir samningar hafa verið gerðir og aðrir endurnýjaðir. Samstarfssamningar við Ungmennafélag Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, Leikklúbb Laxdæla og Félag eldri borgara í Dölum og Reykhólahreppi hafa verið endurnýjaðir. Rekstrarsamningar vegna tjaldsvæðisins í Búðardal, Vínlandsseturs, Eiríksstaða og Árbliks voru gerðir á árinu. Auk þess sem sveitarfélagið gekk inn í samstarfsverkefni við Umf. Ólaf Pá er lýtur að því að elli- og örorkulífeyrisþegar fái frí afnot af líkamsræktaraðstöðu í Búðardal frá 1. janúar 2024.

Það hefur einmitt ýmislegt unnist ár árinu er varðar málefni eldri borgara og er þar vert að nefna að Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun taka yfir rekstur Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns við áramót. Einnig er farið af stað verkefnið „Gott að eldast“ sem sveitarfélagið er aðili að.

Þann 23. nóvember var haldinn fundur með ferðaþjónum í Dalabyggð en slíkir samráðsfundir eru haldnir tvisvar á ári, að vori og hausti. Mæting var góð og er ekki annað að heyra en að ferðaþjónar í sveitarfélaginu komi að mestu ánægðir undan sumrinu og að ýmis tækifæri felist í framtíð þessarar atvinnugreinar í Dalabyggð. Aðrar atvinnugreinar geta einnig sótt fram í sveitarfélaginu, það má m.a. merkja á nýju kjúklingaeldishúsi að Miðskógi og matvöruverslun innan KM þjónustunnar.

Samgöngumálin hafa komið við sögu líkt og fyrri ár, sveitarfélagið samþykkti forgangsáætlun vegaframkvæmda í Dalabyggð fyrr á árinu og hefur sú skýrsla vegið þungt í viðræðum okkar við stjórnvöld og stofnanir sem að þeim koma. Einnig höfum við aukið samtal við Vegagerðina á árinu því það er jú hagur allra að vinna saman að bættu vegakerfi.

Í febrúar úthlutaði innviðaráðherra styrkjum til byggðaverkefna þar sem tvö verkefni í þágu Dalabyggðar fengu styrk og eitt samstarfsverkefni sem snertir svæðið. Verkefnin í þágu Dalabyggðar er annars vegar „Iðngarðar í Búðardal“ og hins vegar ímyndarverkefnið „Dalabyggð í sókn“. Samstarfsverkefnið snýr að „Verðmætasköpun á sauðfjárræktarsvæðum“ og verður áhugavert að fylgjast með framvindu þess enda skiptir landbúnaður okkur í Dalabyggð miklu máli. Fulltrúar Dalabyggðar funduðu einmitt með ráðuneytisstjórahópnum sem nú hefur skilað af sér tillögum til handa bændum. Við fyrstu sýn er það mat okkar að betur má ef duga skal og munum við áfram fylgja málefnum íslenskra bænda eftir á nýju ári.

Menningin hefur blómstrað í Dölunum á árinu og ekki síst nú í desember. Það er nær ógerningur að fara telja allt upp sem telja má til menningarlífs í Dalabyggð á árinu 2023 og megum við svo sannarlega vera stolt af framboði og fjölbreytileika þess. Saman sköpum við gott samfélag á hverjum degi m.a. með hugmyndaflugi og framtakssemi.

Ágæti lesandi, þau eru margþætt viðfangsefni okkar sem sinnum störfum í þágu sveitarfélagsins í Dalabyggð og er hér aðeins stiklað á stóru og alls ekki hægt að nefna allt sem inn á borð okkar starfsmanna Dalabyggðar, margt er háð trúnaði sem ber að virða.

Við gerum okkar besta til að miðla fréttum af því sem er á döfinni hverju sinni og af nógu er að taka sem betur fer. Verkefnin eru mörg og langflest skemmtileg þannig að við horfum björtum augum fram á veginn nú þegar árið 2023 er að renna sitt skeið og við heilsum árinu 2024 af virðingu.  Tíminn flýgur og mér a.m.k. líður þannig að ég sé ný tekinn til starfa sem sveitarstjóri en það er víst að verða komnir 17 mánuðir síðan, 17 skemmtilegir mánuðir enda verkefnin bæði fjölbreytt og spennandi og öll í þágu þess að efla gott samfélag, hvert á sinn hátt.

Ágæti lesandi, Dalabyggð er sveitarfélag í sókn og vilji til framfara svo sannarlega til staðar. Stöndum saman kæru íbúar og vinir og stuðlum þannig að því að komandi misseri færi okkur enn fleiri tækifæri, samfélaginu í Dölunum til heilla á allan hátt.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og góðs og farsæls komandi árs – með kærri þökk fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu sem er að líða, megi árið 2024 verða okkur öllum gott og gjöfult.

Björn Bjarki Þorsteinsson
sveitarstjóri

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei