Menningardagskrá á Vesturlandi

DalabyggðFréttir

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) og Markaðsstofa Vesturlands (MV) ætla með stuðningi frá Sóknaráætlun Vesturlands að stuðla að öflugri menningardagskrá á Vesturlandi í sumar.

Af því tilefni er kallað eftir skráningu á viðburðum og menningarstarfi sem er á döfinni í landshlutanum og haldnir verða á tímabilinu 1. júní – 31. ágúst.

Hægt er að skrá til leiks viðburði og uppákomur af öllu tagi, jafnt stóra sem smáa og hvort heldur sem er fullmótaða eða á hugmyndastigi.
Dagskránni er ætlað að ná yfir margvíslega viðburði og allar listgreinar og upplifanir, svo sem tónlist, leiklist, myndlist, sagnalist, matarlist eða hvað það er sem fólk vill bjóða upp á eða standa fyrir.

Starfsmenn SSV og MV munu vera í sambandi við þá aðila sem senda inn skráningu, fara yfir innsendar tillögur og raða saman dagskrá sem tekur mið af því að alltaf sé spennandi dagskrá í boði á þeim fjórum starfssvæðum sem við notum oft á Vesturlandi, þ.e. á Akranesi og Hvalfirði, Borgarfjarðarhéraði, Snæfellsnesi og í Dölum.

Settar hafa verið fram tvennskonar áherslur við þessa dagskrárgerð.
– Annars vegar verður boðið uppá „fasta liði“ þar sem markmiðið er að hafa allavega einn fastann viðburð á dag, alla daga vikunnar, á þessum fjórum svæðum á tímabilinu.
– Hinsvegar er stefnt á að geta skráð og kynnt alla einsskiptis viðburði sumarsins á Vesturlandi, sem verða þá tilfallandi „krydd í tilveruna“ svo sem tónleikar, menningarhátíðir og svo framvegis.

Markaðsstofan sér um kynningu á verkefninu og dagskránni í allt sumar, þar sem stefnt er að því að kynna alla skráða viðburði á miðlum markaðsstofunnar. Ljóst er að ef vel tekst til, þá verður þessi menningardagskrá áberandi í flóru dægrardvalar á Vesturlandi í sumar.

Þannig ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og gefur það fólki tilefni til að heimsækja Vesturland, dvelja lengur á svæðunum og njóta viðburða og menningar með heimafólki. SSV og MV kalla nú eftir að samstarfsaðilar sem hafa hug á að standa fyrir einhversskonar menningartengdri starfssemi og viðburðum í sumar, skrái sig með því að fara inná meðfylgjandi hlekk hérna neðar og fylla út skráningarblaðið.

Saman getum við styrkt Vesturland, aukið framboð á skemmtilegri upplifun, auðgað menningarlífið og laðað að gesti á öllum svæðum.

Menningarfulltrúi Vesturlands, Sigursteinn Sigurðsson veitir nánari upplýsingar um verkefnið: sigursteinn@ssv.is

Skráning á viðburða- og menningardagskrá á Vesturlandi 2020

Frétt á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV)

Heimasíða Markaðsstofu Vesturlands

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei