Réttindi og ábyrgð á netinu

DalabyggðFréttir

Á alþjóðlega netöryggisdeginum stóð SAFT fyrir málþingi um réttindi og ábyrgð á netinu. Foreldrum og öðrum til fróðleiks kemur hér pistill frá félagsþjónustunni um málþingið og hvernig bæta megi netöryggi.
Alþjóðlegi netöryggisdagurinn var haldinn hátíðlegur í tíunda sinn þann 5. febrúar síðastliðinn. „Réttindi og ábyrgð á netinu ” var þema ársins. Stóðu yfir 70 þjóðir um allan heim fyrir skipulagðri dagskrá þennan dag. Á Íslandi var það SAFT (samfélag, fjölskylda og tækni) sem stóð fyrir málþingi í tilefni dagsins.
Á þinginu var umræðan um nýjungar í tæknimálum áberandi, notkun samskiptaforrita, spjaldtölva og snjallsíma. Rætt var um að netöryggi mætti líkja við umferðaröryggi, við þurfum að þróa okkur sem stafrænt samfélag líkt og gert var með umferðaröryggi, auka fræðslu og þekkingu. Jafnvel þyrfti að skylda fólk til að vera með ákveðinn öryggisbúnað.
Notkun tækninnar í skólum var ofarlega á baugi og hverra það væri að kenna börnum að nota og umgangast tæknina á viðeigandi hátt. Þeirri spurningu var varpað fram hvort kennarar væru nógu vel í stakk búnir til að leiðbeina börnum í þessum efnum, hvort þeir væru nægilega undirbúnir í sínu námi eða endurmenntun til að leiðbeina börnum um tölvunotkun og tækninýjungar.
Í þessu sem flestu öðru virðist ábyrgðin hvíla á foreldrum um að leiðbeina og fylgjast með tækninotkun barna sinna, fræða þau um réttindi og skyldur þeirra á netinu, setja reglur snemma því erfiðara er að setja reglur fyrir eldri börn en yngri. En kunna foreldrar umferðareglurnar á netinu? Hvar fá þeir aðstoð? Foreldrar kalla eftir fræðslu.
Rætt var um mikilvægi þess að lesa skilmála hvers búnaðar til að vita hvaða upplýsingar hvert ,,app” sækir. T.d. geta spjaldtölvur með 3G tækni sótt ákveðnar upplýsingar um notandann, t.d. getur google rakið hvar notandinn hefur verið undanfarið.
Rætt var um einelti, fjárhættuspil, birtingarmyndir kynjanna og klám á netinu. Talið er að börn niður í 11 ára sjái klám á netinu hvort sem þau leita að því eða ekki. Áberandi var í allri umræðu á þinginu að fræðsla væri lykilatriði til að vel megi takast til í notkun tækninnar sem býður upp á óteljandi möguleika, bæði til góð og ills. Þar eru foreldrar í lykilhlutverkum gagnvart börnum sínum og því mikilvægt að þeir leiti sér fræðslu til að geta miðlað áfram til barna sinna, hjálpað þeim að búa til sínar innri síur til að verja þau fyrir óæskilegu efni og samskiptum á netinu.
Vakin skal athygli á að ábendingarhnappur vegna óviðeigandi efnis á netinu sem snýr að börnum er á heimasíðu Barnaheilla. Nytsamar upplýsingar má m.a. finna á síðum Netsvar og SAFT.
Netsíur! Hægt er að fá síur inn á nettengingar hjá flestum netfyrirtækjum. Einnig er t.d. innbyggð ,,foreldravörn“ í Windows 7 en þá þarf foreldrið að vera með Admin (stjórnanda) aðgang. Þar er einnig hægt að setja tímamörk ofl. Foreldrar eru hvattir til að afla sér upplýsinga um síur hjá sínu netfyrirtæki en minnt skal á að engin sía er það örugg að ekki þurfi áfram að fylgjast með netnotkun barnanna.

SAFT

Samfélag, fjölskylda og tækni
er vakningarátak um örugga og jákvæða tölvu- og nýmiðlanotkun barna og unglinga á Íslandi.

Netsvar

Netsvar er vefur þar sem almenningi gefst færi á að senda inn fyrirspurnir
um hvaðeina sem tengist öruggri netnotkun og fá svör frá sérfræðingum.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei