Sveitarstjórn staðfestir forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð

DalabyggðFréttir

Atvinnumálanefnd Dalabyggðar vann skýrslu um forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð vorið 2023. Skýrslan var tekin til umræðu á fundi sveitarstjórnar og staðfest á 235. fundi sveitarstjórnar þann 15. júní 2023.

Markmiðið með gerð forgangsröðunar er að setja fram raunhæfa áætlun um vegaframkvæmdir í Dalabyggð. Vissulega væri hægt að hafa mun fleiri tillögur en hér eru lagðar fram en skýrslunni er ætlað að vera lifandi skjal sem uppfærist eftir því sem framkvæmdum vindur fram og/eða áherslur taka breytingum.

Kjörnir fulltrúar og íbúar Dalabyggðar hafa unnið að því statt og stöðugt að vekja athygli á ástandi vegakerfis í sveitarfélaginu. Það hefur m.a. verið gert með ályktunum og bókunum sveitarstjórna og nefnda, fundum, greinaskrifum, símtölum, samtölum og viðtölum um árabil. Skýrsla þessi verður verkfæri Dalabyggðar í umræðunni og von um að aðrir geti einnig nýtt sér innihald hennar.

Skýrsla þessi um forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð verður send innviðaráðherra, þingmönnum Norðvesturkjördæmis, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, fjárlaganefnd Alþingis, Vegagerðinni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, Samgöngustofu, Byggðastofnun, Samgöngufélaginu, Samtökum ferðaþjónustunnar og sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga.

Úr skýrslunni:

  • Í Dalabyggð er starfsstöð Vegagerðarinnar sem þjónustar vegakerfi sem teygir sig inn í þrjú önnur sveitarfélög sem telur 564 km í heild. Þar af eru 369 km malarvegir, eða um 65%.
  • Íbúar Dalabyggðar búa einnig við það að Skógarstrandarvegur er eini stofnvegur á Vesturlandi sem er án bundins slitlags og sá lengsti á láglendi landsins alls sem er án bundins slitlags, þar sem um 40km án slitlags standa innan Dalabyggðar.
  • Íbúar Dalabyggðar eru næst óánægðastir íbúa landsins með vegakerfið, aðeins íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum voru ósáttari samkv. íbúakönnun landshlutanna 2020.
  • Í drögum að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 sem birt var í Samráðsgátt stjórnvalda 13.06.2023 verður hlé á framkvæmdum á Skógarströnd til ársins 2027 og framkvæmdir á Vestfjarðavegi frá Reykjadalsá að Haukadalsá ekki fyrr en á tímabilinu 2034-2038.
  • Ein sérstaða Dalabyggðar er sú að meirihluti íbúa sveitarfélagsins býr í dreifbýli þess og koma um 70% allra barna í Auðarskóla með skólabílum til skóla.
  • Dalabyggð er áfram um verkefni stjórnvalda við að fækka einbreiðum brúm og vill benda á að nokkrar brýr í Dalabyggð væri hægt að leggja niður með minni tilkostnaði heldur en að byggja nýja tvíbreiða, þ.e. með því að leggja stálræsi eða svokölluð hálfbogaræsi í staðinn.
  • Samkv. kortasjá Samgöngustofu fyrir sl. 5 ár eða tímabilið 01.01.2018 til 31.12.2022.10 hafa í heildina orðið 80 slys eða óhöpp innan Dalabyggðar á tímabilinu en til allrar mildi ekkert banaslys.
  • Talnagögn sýna að SDU er meiri en VDU á öllum vegum eða að meðaltali 348% meiri meðalumferð á dag á tímabilinu júní – september, á vegum með tveggja stafa númer.
  • Af þeim 129 vegköflum sem skráðir eru í Dalabyggð, er að finna lögheimili við 96% skráðra vegkafla.

Forgangsröðun er þannig sett upp að fyrst eru tekin fyrir þau verkefni sem verið er að vinna að eða eru að koma til framkvæmda og Dalabyggð leggur áherslu á að verði lokið. Næst er farið yfir þau verkefni sem teljast mega rökrétt framhald af fyrri framkvæmdum eða öðrum tillögum. Þeim er skipt upp í stofnvegi, tengivegi og héraðsvegi. Loks er farið yfir aðrar áherslur og tillögur í samgöngumálum sem beinast bæði að stjórnvöldum, Vegagerðinni og sveitarstjórn Dalabyggðar.

Yfirstandandi framkvæmdir sem áhersla er á að ljúki: Snæfellsnesvegur (54-22), Laxárdalsvegur (59-11) og Klofningsvegur (590-01).

Næstu framkvæmdir sem áhersla er á skiptast upp í stofnvegi, tengivegi og héraðsvegi.
Stofnvegir: Vestfjarðarvegur (60-03), Vestfjarðavegur (60-04) og Vestfjarðavegur (60-09).
Tengivegir: Klofningsvegur (590-02), Haukadalsvegur (586-01) og Klofningsvegur (590-07).
Héraðsvegir: Hörðudalsvegur eystri (581-01), Orrahólsvegur (593-01) og Staðarhólsvegur (594-01).

Aðrar áherslur eru m.a. fleiri flokkar nýframkvæmda, samvinnuvegir, betri nýting fjármuna með samfellu í framkvæmdum, þverun Álftafjarðar, talningar á vegum og að viðbrögð við náttúruhamförum skerði ekki eðlilegt framkvæmdafé.

Skýrsluna í heild, má nálgast hér: Forgangsröðun vegaframkvæmda í Dalabyggð

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei