Tómas R og Ómar að Laugum

DalabyggðFréttir

Kontrabassaleikarinn Tómas R. Einarsson og gítarleikarinn Ómar Guðjónsson spila á tónleikum á Hótel Eddu, Laugum í Sælingsdal fimmtudagskvöldið 2. ágúst kl. 21.00.
Þeir félagar munu leika fjölbreytta tónlist, þar á meðal latíntónlist og sveifludjass. Gestum stendur til boða að gæða sér á saltfiskrétti úr uppskriftasafni Tómasar R. meðan á tónleikunum stendur.
Dalamaðurinn og kontrabassaleikarinn Tómas R. Einarsson hefur gefið út fjölda geisladiska með eigin tónlist. Þar er að finna latíndjass og ljóðadjass og hann hefur einnig unnið með söngvurum; síðast á Trúnó (2008) með Ragnheiði Gröndal og Mugison. Latínlög hans hafa komið á vinsælum safndiskum erlendis og latíndiskar hans hafa selst í meira en tíu þúsund eintökum hérlendis. Síðustu diskar hans eru Strengur (2011), þar sem hann vann með vatnshljóð sem hann tók upp á ættarslóðum sínum, og Laxness (2012), með tónlist hans við heimildarmynd um Halldór Laxness.
Gítarleikarinn Ómar Guðjónsson hefur í áratug verið í fremstu röð íslenskra gítarleikara. Hann er fjölhæfur gítarleikari og hefur spilað djass, fönk, rokk og popp. Hann hefur hljóðritað þrjár plötur í sínu nafni og samið tónlist fyrir sjónvarp og leikhús. Hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin tvö ár í röð; 2009 fyrir disk sinn Fram af og 2010 fyrir diskinn ADHD, en hann er einn af stofnendum þeirrar hljómsveitar. Ómar hefur einnig spilað heima og erlendis með Stórsveit Samúels J. Samúelssonar, hljómsveitinni Jagúar og Latínsveit Tómasar R.
Miðapantanir og nánari upplýsingar er hægt að fá með því að hringja í 444 4930 eða með því að senda tölvupóst á laugar@laugar.is.

Tómar R. Einarsson

Ómar Guðjónsson

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei