Umræðufundur Bakkahvamms hses. vegna byggingar íbúða

DalabyggðFréttir

Stjórn Bakkahvamms hses. boðar til umræðufundar með verktökum og iðnaðarmönnum í Dalabyggð varðandi áætlun um byggingu íbúða, í fundarsal Stjórnsýsluhússins að Miðbraut 11 í Búðardal (2. hæð), fimmtudaginn 20. janúar nk. kl. 17:00.

Þeir sem hafa áhuga á að sitja fundinn verða að skrá sig hjá Jóhönnu eigi síðar en kl.13:00 daginn áður (19.01.2022), með því að hringja í síma 430-4700 eða senda póst á johanna@dalir.is
Bendum fyrirtækjum á að skrá/tilkynna nöfn allra starfsmanna sem hyggjast sækja fundinn. Aðeins skráðum þátttakendur verður hleypt inn á fundinn og þar verður grímuskylda.
Fari fjöldi þátttakenda yfir hámarksfjölda einstaklinga í sama rými samkvæmt gildandi takmörkunum verður fundurinn fjarfundur í gegnum forritið Teams.

Bakkahvammur hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem var stofnuð síðla árs 2019. Hlutverk stofnunarinnar er að byggja eða kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi almennra félagsíbúða í Dalabyggð og veita þjónustu í almannaþágu samkvæmt lögum 52/2016 um almennar íbúðir. Aðalstarfsemi Bakkahvamms er rekstur leiguíbúða.

Bakkahvammur hses. hefur nú sótt um og fengið samþykkt stofnframlag til uppbyggingar á þremur 80fm íbúðum í Búðardal á árinu 2022 (verktími áætlaður frá maí til desember). Fundurinn er ætlaður til þess að kanna áhuga heimamanna og möguleika þeirra til að geta tekið þátt í byggingu íbúðanna.

Á fundinum verður farið yfir helstu kostnaðartölur og það umhverfi sem Bakkahvammi og samstarfsaðilum við byggingu er gert að starfa eftir samkvæmt lögum um almennar íbúðir þegar kemur að verkefni sem þessu.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei