Viðbrögð Dalabyggðar vegna fyrirhugaðrar breytingar á póstafgreiðslu í Búðardal

DalabyggðFréttir

Dalabyggð barst á dögunum bréf frá Byggðastofnun þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins vegna fyrirhugaðra breytinga á póstþjónustu í Búðardal en skv. erindi Íslandspósts sem fylgdi bréfinu mun pósthúsinu í Búðardal verða lokað frá og með 1. júní nk.

Dalabyggð hefur sent umsögn sína til Byggðastofnunar þar sem við hörmum ákvörðun Íslandspósts um lokun starfsstöðvarinnar í Búðardal. Það eru skv. upplýsingum um að ræða niðurlagningu 1,2 stöðugilda sem er svo sannarlega skarð í atvinnulíf svæðisins.

Að okkar mati geta breytingar á aðgengi að þjónustu haft áhrif á afgreiðsluhraða og jafnframt gerir breytingin fólki sem er að senda frá sér vörur sem framleiddar eru í Dalabyggð torveldara fyrir á vissan hátt.

Staðsetning Búðardals teljum við einnig að hljóti að skipta miklu þegar ákvörðun sem þessi er tekin. Það má segja að í gegnum Búðardal og Dalabyggð liggi lífæð inn á Vestfirði og Strandir og því væri nær að huga að því að í Búðardal yrði miðstöð Póstsins og dreifingarstöð. Einnig hefur sá vetur sem nú er senn á enda sýnt fram á mikilvægi Búðardals sem ákveðinnar miðju í ljósi þess að Brattabrekka og Laxárdalsheiði eru mun oftar opnar þegar óveður geysar í samanburði við Holtavörðuheiði.

Einnig höfum við áhyggjur af þeim búnaði sem til staðar er við og í núverandi húsnæði Íslandspósts í Búðardal.

Næsta pósthús eftir fyrirhugaðar breytingar verður í Borgarnesi og því yfir fjallveg (Bröttubrekku) að fara og vegalengdin á þeirri leið er 80 km. Annað valkostur er Stykkishólmur og þá um Skógarströnd sem er 84,4 km. og ástand þess vegar mjög bágborið.

Það er vitað að bréfasendingum hefur fækkað mikið en pakkasendingum hefur fjölgað og því er það dapurlegt að Pósturinn sé að draga úr þjónustu sinni í samfélagi þar sem ekki er um margar verslanir að ræða og íbúar þurfa að panta ýmsar nauðsynjar að, m.a. í gegnum vefverslanir og þar skiptir fyrrgreind þjónusta og aðgengi að henni miklu máli.

Við í Dalabyggð viljum koma á framfæri skýrum og afdráttarlausum mótmælum okkar við fyrirhugaðri lokun pósthússins í Búðardal. Við erum að leita allra leiða til að styrkja innviði okkar samfélags og því skýtur þessi ákvörðun Íslandspósts skökku við að okkar mati og er í algerri mótsögn við þau sjónarmið sem birtast í byggðaáætlun stjórnvalda.

Við erum í sóknarhug og því sættum við okkur alls ekki við þá ákvörðun sem hér um ræðir og förum því fram á að hún verði endurskoðuð og ákvörðun tekin um áframhaldandi rekstur í Búðardal í ljósi mikilvægrar staðsetningar starfseminnar hér.

Mótmælum Dalabyggðar hefur nú verið komið á framfæri og væntum við viðbragða við þeim frá bæði Byggðastofnun og Íslandspósti með von og trú um að fyrirhuguð áform verði endurskoðuð.

 – Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei