Nokkur orð um verkefnið Brothættar byggðir

DalabyggðFréttir

Brothættar byggðir er verkefni á vegum Byggðastofnunar og samstarfsaðila víða um land. Það hófst á Raufarhöfn 2012. Alls hefur verkefnið náð til 12 byggðarlaga á árunum 2012-2021 og á fyrstu mánuðum 2022 er það að hefjast á Stöðvarfirði og í Dalabyggð.

Verkefninu er ætlað að nýtast þeim byggðarlögum sem hafa glímt við langvarandi fólksfækkun og gjarnan hefur fækkun íbúa fylgt hnignun í atvinnulífi og þjónustu. Byggðarlög eru valin til þátttöku með hliðsjón af stöðu þeirra, samkvæmt mælikvörðum sem Byggðastofnun hefur þróað.

Verklag við framkvæmdina hefur mótast á liðnum árum en í megindráttum er í dag stuðst við verkefnislýsingu sem gefin var út 2016-2017. Hvert verkefni stendur að jafnaði í fjögur til fimm ár.

Megintilgangur verkefnisins er að styðja við bakið á íbúum í þeim verkefnum og framfaramálum sem þeir setja á dagskrá á íbúaþingi í upphafi. Í framhaldi af þinginu mótar verkefnisstjórn, skipuð fulltrúum íbúa, sveitarfélags, landshlutasamtaka og Byggðastofnunar, verkefnisáætlun. Í verkefnisáætlun er sett fram framtíðarsýn fyrir byggðarlagið og markmið skilgreind. Afraksturinn er borinn undir íbúafund til breytinga og/eða samþykkis og þar með getur hin eiginlega verkefnavinna hafist. Árlega er haldinn fundur þar sem íbúum gefst tækifæri til að uppfæra verkefnisáætlun.

Segja má að verkefninu sé einkum ætlað að nýtast íbúum með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er ráðinn  verkefnisstjóri sem hefur það hlutverk að halda utan um vinnu að þeim markmiðum sem skilgreind eru í verkefnisáætlun en framlag íbúa er þar einnig afar mikilvægt. Verkefnisstjórinn hefur enn fremur það hlutverk að styðja íbúa og fyrirtæki í einstökum framfaraverkefnum sem eru á könnu hvers og eins. Má þar nefna aðstoð við gerð áætlana og umsókna. Í öðru lagi er á hverju ári auglýst eftir umsóknum um styrki til framfaraverkefna í byggðarlaginu. Um er að ræða samkeppnissjóð með takmarkaða fjármuni en óhætt er að segja að úthlutun úr sjóðnum hafi hvatt marga til dáða.

Frá upphafi til loka árs 2021 hafði, í öllum byggðarlögunum samtals, verið úthlutað 476 styrkjum í verkefninu að heildarupphæð 423 m.kr. Þar munar mikið um fjárfestingarátak stjórnvalda vegna Covid að upphæð 100 m.kr. á árinu 2020.

Ýmsar upplýsingar um verkefnið má sjá á heimasíðu Byggðastofnunar með því að smella á eftirfarandi tengla:

Það er því mikilvægt ef vel á að takast til, að við komum sem flest að þessari vinnu. Markmiðið er eitt: Að gera samfélagið okkar betur í stakk búið til að vinna úr áskorunum og gera sem flestar breytingar okkur hagfelldar. Í stað upplifunar okkar á að hnignun eigi sér stað, þá lítum við á breytingar sem tækifæri til að sækja fram og gera með því meira en að halda í horfinu.

Varðandi það að Dalabyggð sé brothætt byggð, þá  hafa þau byggðarlög sem hafa tekið þátt í svona verkefni, sannað það að á meðan svæði er byggt, þá er alltaf von. Okkar von er sú að með þessu verkefni sýnum við fram á að Dalabyggð sé í raun öflugt samfélag sem vert er að sækjast eftir að tilheyra.

Verkefnisstjórn brothættra byggða í Dalabyggð,

Kristján Sturluson fulltrúi sveitarstjórnar Dalabyggðar
Bjarnheiður Jóhannsdóttir fulltrúi íbúa Dalabyggðar
Þorgrímur Guðbjartsson fulltrúi íbúa Dalabyggðar
Páll Brynjarsson fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, SSV
Ólafur Sveinsson fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, SSV
Helga Harðardóttir fulltrúi Byggðastofnunar
Kristján Þ. Halldórsson fulltrúi Byggðastofnunar

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei